Til baka
November 4, 2019

Gert ráð fyrir verulegum framkvæmdum við gerð viðlegukants á Langeyri

Í drögum að samgönguáætlun til 2024 kemur fram að áætlað er að verja um 1.318 milljónum króna til hafnaframkvæmda á Vestfjörðum og greiði Hafnabótasjóður ríkisins tæpar 700 milljónir af fyrirhuguðum framkvæmdakostnaði.

Viðlegukanturinn tilbúinn 2022

Af heildarkostnaði við framkvæmdir í fjórðungnum er áætlað að verja 273 milljónum króna til gerðar 80 metra langs stálþils vegna nýs viðlegukants á iðnaðarsvæðinu við Langeyri í Súðavík sem gert er ráð fyrir að ljúka 2022. Einnig er gert ráð fyrir endurbyggingu trébryggjunnar Miðgarðs í Súðavík fyrir um 106 milljónir 2024.

Tillaga að deiliskipulagi auglýst

Súðavíkurhreppur hefur þegar auglýst tillögu að deiliskipulagi hafnar- og iðnaðarsvæðisins inn af Langeyri sem sveitarstjórnin samþykkti 31. maí síðastliðinn. Í auglýsingunni sem birtist í fjölmiðlum, segir m.a. að tillagan feli í sér „heimild til að byggja kalkþörungaverksmiðju á svæðinu þar sem unnið yrði allt að 120.000 m² af kalkþörungaseti úr Ísafjarðardjúpi á ári. Deiliskipulagssvæðið er að stórum hluta á uppfyllingu. Gert er ráð fyrir 230.000 m³ landfyllingu á allt að 38.000 m² svæði og 80 m löngum viðlegukanti. Á svæðinu verður rými fyrir hráefnislón, setlón og frekari vinnslu efnisins, þ.e.a.s. þurrkun, síun, mölun og sekkjun. Rými er fyrir allt að 9.000 m² verksmiðjuhúsi, 1.400 m² grófgeymslu og 400 m² skrifstofu- og starfsmannahúsi.“  

Hverfandi hljóð frá verksmiðju

Af öðrum þáttum sem tengjast þróunarferli verkefnis Kalkþörungafélagsins við Langeyri má nefna að Verkís hefur framkvæmt hljóðmælingar á svæðinu sem sýna að hljóðmengun af völdum starfsemi verkmiðjunnar fyrir íbúa í Súðavík eru hverfandi miðað við þau áhrif sem hlýst nú þegar af bílaumferð um þjóðveginn eins og meðfylgjandi skýringarmyndir Verkíss sýna. Enn fremur má nefna að uppfærðri matsskýrslu VSÓ og viðaukum vegna fyrirhugaðs efnisnáms í Ísafjarðardjúpi hefur verið skilað til umfjöllunar hjá Skipulagsstofnunar. Óvíst er hvenær stofnunin birtir álit sitt. Einnig er beðið umsagnar frá Orkustofnunar.

Viljayfirlýsing um kaup á raforku

Marigot, móðurfélag Djúpkalks, hefur undirritað viljayfirlýsingu um kaup á allt að átta mega­vött­um af raf­orku í tengsl­um við fyr­ir­hugaða kalkþör­unga­verk­smiðju Marigot í Súðavík.

LESA MEIRA

Hugmyndin kynnt íbúum

Frummatsskýrsla að kalkþörungaverksmiðju á Súðavík var kynnt íbúum Súðavíkurhrepps á fundi í október á síðasta ári. Að fengnum fjölda ábendinga umsagnar- og hagsmunaaðila hefur verið unnið að frekari þróun verkefnisins fyrir næstu útgáfu skýrslunnar sem kynnt verður innan tíðar.

LESA MEIRA

Halldór Halldórsson fer fyrir Íslenska kalkþörungafélaginu á Íslandi

Halldór Halldórsson, fyrrverandi borgarfulltrúi í Reykjavík, hefur verið ráðinn forstjóri Íslenska kalkþörungafélagsins ehf., sem er í eigu írska félagsins Marigot. Íslenska kalkþörungafélagið rekur kalkþörungaverksmiðju á Bíldudal, Ískalk, og hyggur einnig á fjárfestingu í sambærilegri verksmiðju í Súðavík, Djúpkalki, auk Deltagen; verksmiðju í Stykkishólmi sem vinna mun afurðir úr þangi og þara úr Breiðafirði.

LESA MEIRA