Marigot, móðurfélag Djúpkalks, undirritaði í janúar viljayfirlýsingu um kaup á allt að átta megavöttum af raforku af Vesturverki í tengslum við fyrirhugaða kalkþörungaverksmiðju Marigot í Súðavík. Yfirlýsingin er háð því skilyrði að af Hvalárvirkjun verði. Búist er við að Djúpkalk skapi hátt í 30 störf þegar fullum afköstum hefur verið náð.
Marigot á Írlandi er eigandi Íslenska kalkþörungafélagsins á Bíldudal við Arnarfjörð. Fyrirtækið ráðgerir að reisa verksmiðju í Súðavík sem vinna mun kalkþörunga úr Ísafjarðardjúpi og er áætlað að gangsetja verksmiðjuna árið 2020.
Viljayfirlýsingin lýtur að því að fyrirtækið kaupi raforku til verksmiðjunnar af Vesturverki í framhaldi af mögulegri uppbyggingu Hvalárvirkjunar í Ófeigsfirði á Ströndum. Þegar verksmiðjan hefur náð fullum afköstum verður aflþörf hennar átta megavött.
Í viljayfirlýsingunni kemur fram að endanlegt samningsverð muni m.a. ákvarðast af kostnaðarverði framleiddrar orku í Hvalárvirkjun og verður það í samhengi við markaðsaðstæður á þeim tíma sem verksmiðjan tekur til starfa, að því gefnu að uppbygging Hvalárvirkjunar verði tryggð. Gildistími samnings verður 10 ár frá gangsetningu verksmiðjunnar.
Marigot, móðurfélag Djúpkalks, hefur undirritað viljayfirlýsingu um kaup á allt að átta megavöttum af raforku í tengslum við fyrirhugaða kalkþörungaverksmiðju Marigot í Súðavík.
Frummatsskýrsla að kalkþörungaverksmiðju á Súðavík var kynnt íbúum Súðavíkurhrepps á fundi í október á síðasta ári. Að fengnum fjölda ábendinga umsagnar- og hagsmunaaðila hefur verið unnið að frekari þróun verkefnisins fyrir næstu útgáfu skýrslunnar sem kynnt verður innan tíðar.
Halldór Halldórsson, fyrrverandi borgarfulltrúi í Reykjavík, hefur verið ráðinn forstjóri Íslenska kalkþörungafélagsins ehf., sem er í eigu írska félagsins Marigot. Íslenska kalkþörungafélagið rekur kalkþörungaverksmiðju á Bíldudal, Ískalk, og hyggur einnig á fjárfestingu í sambærilegri verksmiðju í Súðavík, Djúpkalki, auk Deltagen; verksmiðju í Stykkishólmi sem vinna mun afurðir úr þangi og þara úr Breiðafirði.