Til baka
November 22, 2018

Þriggja milljarða króna fjárfesting fram undan við Álftafjörð

Í viðtali við vef Bæjarins besta þann 15. nóvember gerði Halldór Halldórsson, framkvæmdastjóri Íslenska kalkþörungafélagsins, nokkra grein fyrir þeim yfirstandandi og umliðnu fjárfestingum sem félagið hefur ráðist í undanfarin misseri á Bíldudal og þau verkefni sem fram undan eru í Súðavík þar sem fyrirhugað er að reisa nýja verksmiðju til vinnslu kalkþörunga úr Ísafjarðardjúpi.

Þrír milljarðar í verksmiðju í Súðavík

Í viðtalinu kom fram að bara á þessu ári hafi verið fjárfest fyrir um hálfan milljarð króna í verksmiðjunni á Bíldudal með það að markmiði að auka afkastagetu hennar í 85 þúsund tonn á ári. Fram undan eru svo ný og stærri verksmiðja á iðnaðarsvæði Súðavíkurhrepps við Langeyri í Álftafirði sem afkasta mun 120 þúsund tonnum á ári og kosta um þrjá milljarða króna.

Næstu skref á nýju ári

Í viðtalinu segir meðal annars: „Unnið er að gerð frummatsskýrslu. Skipulagsstofnun óskaði eftir umsögnum um skýrsluna í september 2017 og enn er beðið eftir einhverjum svörum. Halldór sagði ekki alveg ljóst eftir hverjum væri beðið. Hann segist hins vegar gera sé vonir um að þessu fari að ljúka og þá mun Íslenska kalkþörungafélagið skrifa matsskýrslu og senda hana til Skipulagsstofnunar sem hefur þá fjórar vikur til þess að gefa grænt ljós á hana. Það gæti verið fljótlega eftir áramótin sem þetta gæti legið fyrir, hugsanlega fyrr. Þá fer málið til Orkustofnunar sem veitir námaleyfi úr kalkþörunganámunum í Djúpinu. Það leyfi verður hægt að kæra þegar þar að kemur og lögin eru svo úr garði gerð að kærendur þurfa ekki að hafa gert athugasemdir á fyrri stigum málsins. Komi fram kærur mun það hafa áhrif á framvindu verksins. Halldór segir að ekki verði hægt að hefja byggingarframkvæmdir fyrr en nýja hafnarsvæðið hefur verið gert og efnið í því hefur sigið, en framkvæmdir taka langan tíma.“

Raforkan er stór þáttur

Í viðtalinu kemur fram að verksmiðjan við Langeyri muni þurfa á bilinu 8 til 12 MW en núverandi línur beri einungis 3 MW. Á þessu stigi er óljóst hvenær flutningsgetan verður aukin. Fyrirtækið hefur þegar undirritað viljayfirlýsingu um raforkukaup af Vesturverki sem ráðgerir virkjun Hvalár enda þótt verksmiðjan verði risin á undan virkjuninni. Því er ekki útilokað að fyrst um sinn verði verksmiðjan knúin með gasi.


Hægt er að nálgast viðtalið á BB í heild með því að smella HÉR.


Viljayfirlýsing um kaup á raforku

Marigot, móðurfélag Djúpkalks, hefur undirritað viljayfirlýsingu um kaup á allt að átta mega­vött­um af raf­orku í tengsl­um við fyr­ir­hugaða kalkþör­unga­verk­smiðju Marigot í Súðavík.

LESA MEIRA

Hugmyndin kynnt íbúum

Frummatsskýrsla að kalkþörungaverksmiðju á Súðavík var kynnt íbúum Súðavíkurhrepps á fundi í október á síðasta ári. Að fengnum fjölda ábendinga umsagnar- og hagsmunaaðila hefur verið unnið að frekari þróun verkefnisins fyrir næstu útgáfu skýrslunnar sem kynnt verður innan tíðar.

LESA MEIRA

Halldór Halldórsson fer fyrir Íslenska kalkþörungafélaginu á Íslandi

Halldór Halldórsson, fyrrverandi borgarfulltrúi í Reykjavík, hefur verið ráðinn forstjóri Íslenska kalkþörungafélagsins ehf., sem er í eigu írska félagsins Marigot. Íslenska kalkþörungafélagið rekur kalkþörungaverksmiðju á Bíldudal, Ískalk, og hyggur einnig á fjárfestingu í sambærilegri verksmiðju í Súðavík, Djúpkalki, auk Deltagen; verksmiðju í Stykkishólmi sem vinna mun afurðir úr þangi og þara úr Breiðafirði.

LESA MEIRA